Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

BÝR HÖNNUN AÐ BAKI?

Froskur með sérkennilega æxlunarhætti

Froskur með sérkennilega æxlunarhætti

ÁSTRALSKUR froskur af ættkvíslinni Rheobatrachus, sem er talinn útdauður frá árinu 2002, hafði afar sérkennilega æxlunarhætti. Kerlan gleypti frjóvguð eggin og hlúði að þeim í maganum í um það bil sex vikur. Þar klöktust þau út og ungarnir skriðu fullburða út um munninn.

Móðirin þurfti ekki aðeins að hætta að nærast – hún þurfti að hætta að framleiða magasýrur, því annars hefði hún melt eggin. Að því er best verður séð gáfu eggin og ungarnir frá sér efni sem hömluðu sýrumyndun.

Móðirin klakti út ríflega 20 eggjum. Þegar ungarnir voru fullburða gátu þeir vegið næstum 40 prósent af líkamsþyngd móðurinnar. Það er eins og ef kona, sem er 68 kíló að þyngd, gengi með 24 börn sem eru 1,8 kíló (rúmlega 7 merkur) hvert um sig. Froskarnir teygðu svo mikið á maga móðurinnar að lungun lögðust alveg saman svo að hún neyddist til að anda gegnum húðina.

Ungarnir komu yfirleitt í heiminn á nokkurra daga tímabili eftir því sem þeir urðu fullburða. En ef móðirin skynjaði hættuástand ældi hún þeim upp. Vísindamenn urðu eitt sinn vitni að því þegar kvendýr losaði sig við sex unga í einu með því að æla þeim upp af slíkum krafti að þeir spýttust heilan metra upp í loftið.

Ef æxlunarhættir þessa frosks þróuðust, eins og sumir halda fram, hefði líkami hans og atferli þurft að taka gríðarlegum breytingum í einu vetfangi. „Það er ómögulegt að hugsa sér að æxlunarhættir hans hafi breyst hægt og sígandi,“ segir vísindamaðurinn og þróunarsinninn Michael J. Tyler. „Þeir virka annað hvort fullkomlega eða þeir virka alls ekki.“ Hann segir einu trúverðugu skýringuna vera að breytingin hafi átt sér stað í „einu stóru stökki“. Slíkt stökk myndu sumir kalla sköpun. *

Hvað heldur þú? Urðu sérkennilegir æxlunarhættir þessa frosks til við þróun? Eða býr hönnun að baki?

^ gr. 7 Í bókinni Uppruni tegundanna, eftir Charles Darwin, segir um náttúrulegt val: „Það verkar eingöngu með því að velja úr gagnlegan breytileika sem smám saman verður til; þetta gerist aldrei ... í stórum stökkum.“