Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvalirnir eru komnir!

Hvalirnir eru komnir!

Frá júlímánuði á ári hverju flykkjast kýr flatbaksins (Eubalaena australis) að sunnanverðri strönd Santa Catarina í Brasilíu. Þær koma mörg þúsund kílómetra leið, allt frá Suður-Íshafi, til að fæða kálfa sína þar á grunnsævi og annast þá. Um nokkurra mánaða skeið njóta jafnt ferðamenn og íbúar landsins þess að fylgjast með frá strandlengjunni þegar hvalkýr og kálfar lóna og leika sér í sjónum. *

Fimir risar í sjónum

Flatbakskýr getur orðið 16 metra löng eða álíka löng og strætisvagn af stærstu gerð og allt að 80 tonn að þyngd. Stór og mikill skrokkurinn er yfirleitt svartur en stundum eru hvítir flekkir á kviðnum. Hausinn er gríðarstór eða fjórðungur af lengd dýrsins. Kjafturinn er stór og bogadreginn. Eins og nokkrar aðrar hvalategundir er hann bakuggalaus. Þegar hann syndir sveiflar hann V-laga sporðblöðkunni upp og niður en ekki til hliðanna eins og fiskar. Hann stýrir sér með bægslunum. Það er ekki ólíkt því hvernig flugvél er stýrt.

Þó að flatbakurinn sé gríðarlega stór er hann merkilega fimur í hreyfingum og getur gert ótrúlegar kúnstir. Stundum lætur hann sig reka langa stund með sporðinn upp úr sjónum. Einnig má sjá sporðaköst þar sem hann slær yfirborð sjávarins af krafti. Hægt er að sjá langar leiðir þegar flatbakurinn stekkur og skellur á sjónum með miklum bægslagangi.

Útlitseinkenni

Á hausnum og í kringum hann eru hvít- eða gulleit þykkildi eða hnúðar alsettir litlum sníkjukröbbum sem kallast hvalalýs (Cyamus). „Hver hnúður hefur sitt sérkenni sem hægt er að þekkja hvern flatbak á, rétt eins og fingraför hjá mönnum,“ segir Karina Groch sem stýrir brasilísku verkefni um flatbakinn (Brazilian Right Whale Project). „Við höldum skrá yfir hvali sem koma upp að ströndum okkar með því að taka myndir af hnúðamynstri þeirra.“

Líffræðingar segja erfitt að aldursgreina flatbaka við krufningu af því að þessi hvalategund hefur engar tennur. Þeir áætla lífslíkur hvalsins að minnsta kosti 65 ár. *

Sérkennilegar matarvenjur

Flatbakurinn nærist á agnarsmáum krabbadýrum. Nokkur hundruð skíði standa beggja megin niður úr efri skolti dýrsins. Skíðisplöturnar eru með fínum kögurhárum sem mynda síur. Þeir synda með opinn kjaftinn og fylla hann af sjó sem þeir sía síðan út gegnum skíðisplöturnar og kögurhárin góma smáa bráðina. Með þessu móti getur hvalurinn innbyrt allt að tvö tonn af krabbadýrum á dag.

Flatbakurinn dvelur á Suður-Íshafi yfir sumartímann (janúar-febrúar) og safnar þar fitu. Þykkt hvalspikið er hin besta einangrun í köldum sjónum og er góður orkuforði þegar dýrið flytur sig milli staða.

Hvers vegna voru þeir veiddir?

Frá 18. öld voru þessir hvalir veiddir í miklum mæli á suðurhveli jarðar. Hvers vegna voru þeir veiddir? Þeir synda hægt og voru því auðveld bráð, jafnvel fyrir hvalveiðimenn á veikbyggðum trébátum vopnaðir handskutlum einum saman. Ólíkt öðrum hvölum flýtur flatbakurinn upp á yfirborðið eftir að hann er drepinn vegna þess hve mikið spik er á honum. Hvalveiðimenn gátu því auðveldlega dregið hann að landi.

Þar að auki voru hvalskíði og hvalspik eftirsótt verslunarvara á þeim tíma. Hvalspik var notað á olíulampa til götulýsinga og sem koppafeiti. Hvalskíðin voru notuð í hluti eins og lífstykki, hestasvipur og regnhlífar. Hægt var að fjármagna heila veiðiferð með skíðum úr aðeins einum hval.

Snemma á 20. öld minnkaði hvalastofninn verulega vegna ofveiði og að lokum borgaði veiðin sig ekki lengur. Í Brasilíu var síðasta hvalstöðin lögð niður árið 1973. Fjölgað hefur hægt og bítandi hjá sumum hvalategundum en aðrar eru enn í bráðri útrýmingarhættu.

Flatbakurinn er greinilega einstakt dæmi um stórbrotið og afar fjölbreytt lífríki jarðar. Hann ber vitni um undraverða visku og mátt skapara síns, Jehóva Guðs, hönnuðarins mikla. – Sálmur 148:7.

^ gr. 2 Flatbakurinn fæðir kálfa sína við aðrar nálægar strendur og við strendur Argentínu, Ástralíu, Suður-Afríku og Úrúgvæ auk Auckland-eyja.

^ gr. 8 Vísindamenn flokka hvali af sléttbakaætt í nokkrar tegundir. Auk Eubalaena australis (flatbaks) á suðurhveli jarðar eru meðal annars Eubalaena glacialis (sléttbakur) og Eubalaena japonica (heiðbakur) á norðurhveli jarðar.