Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

HAMINGJURÍK LÍFSSTEFNA

Kærleikur

Kærleikur

MENNIRNIR ÞARFNAST KÆRLEIKA. Hjónabönd, fjölskyldur og vináttubönd þrífast ekki án hans. Það liggur því í augum uppi að kærleikur er mikilvægur andlegri heilsu okkar og hamingju. En hvers konar kærleika er um að ræða?

Hér er ekki átt við rómantíska ást, þó að hún sé að sjálfsögðu mikilvæg, heldur er átt við æðri mynd kærleikans. Hann fær fólk til að bera ósvikna umhyggju fyrir öðrum og jafnvel láta þarfir annarra ganga fyrir sínum eigin. Það er kærleikur sem er byggður á meginreglum frá Guði. Hann er þó engan veginn sneyddur tilfinningum og hlýju.

Í Biblíunni er þessi fallega lýsing á kærleikanum: „Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum. Hann breiðir yfir allt ... vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.“ – 1. Korintubréf 13:4-8.

Slíkur kærleikur „fellur aldrei úr gildi“, það er að segja hann verður alltaf til. Hann getur jafnvel orðið sterkari með tímanum. Hann er langlyndur, góðviljaður og sáttfús og þar af leiðandi fullkomið einingarband. (Kólossubréfið 3:14) Þrátt fyrir ófullkomleika okkar getum við því átt traust og hamingjuríkt samband við aðra ef við byggjum það á slíkum kærleika. Tökum hjónabandið sem dæmi.

FULLKOMIÐ EININGARBAND

Jesús Kristur benti á mikilvægar meginreglur um hjónabandið. Til dæmis sagði hann: „Því skal maður yfirgefa föður og móður og búa með konu sinni og þau tvö skulu verða einn maður ... Það sem Guð hefur tengt saman má eigi maðurinn sundur skilja.“ (Matteus 19:5, 6) Hér er að finna að minnsta kosti tvær mikilvægar meginreglur.

„ÞAU TVÖ SKULU VERÐA EINN MAÐUR.“ Hjónaband er nánasta samband sem tveir einstaklingar geta átt og kærleikurinn getur komið í veg fyrir ótryggð í hjónabandinu, það er að segja að eiginmaðurinn eða eiginkonan verði „einn líkami“ með öðrum en makanum. (1. Korintubréf 6:16; Hebreabréfið 13:4) Framhjáhald brýtur niður traust og getur eyðilagt hjónabandið. Ef hjónin eiga börn getur skaðinn orðið enn meiri. Börnin geta orðið óörugg, fundist þau ekki vera elskuð og jafnvel fyllst gremju.

„ÞAÐ SEM GUÐ HEFUR TENGT SAMAN.“ Hjónabandið er heilagt. Þegar hjón líta þannig á hjónabandið vinna þau að því að styrkja það. Þau slíta því ekki þó að erfiðleikar komi upp. Kærleikur þeirra er sterkur og þolgóður. Slíkur kærleikur „umber allt“ og hjálpar hjónum að leysa vandamál svo að eining og friður hjónabandsins haldist.

Það er mjög gott fyrir börnin þegar foreldrarnir sýna hvort öðru fórnfúsan kærleika. Ung kona að nafni Jessica segir: „Foreldrar mínir elska og virða hvort annað af öllu hjarta. Þegar ég sé virðinguna sem mamma sýnir pabba langar mig að líkja eftir henni.“

Kærleikurinn er fremsti eiginleiki Guðs. Biblían segir: „Guð er kærleikur.“ (1. Jóhannesarbréf 4:8) Það kemur því ekki á óvart að Jehóva skuli einnig vera kallaður ,hinn sæli Guð‘. (1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912) Við verðum einnig hamingjusöm þegar við leggjum okkur fram um að líkja eftir eiginleikum skapara okkar – sérstaklega kærleika hans. Í Efesusbréfinu 5:1, 2 segir: „Verðið því eftirbreytendur Guðs svo sem elskuð börn hans. Lifið í kærleika.“