Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þú getur verið hógvær þegar á reynir

Þú getur verið hógvær þegar á reynir

,Þjónaðu Guði í hógværð.‘ – MÍKA 6:8.

SÖNGVAR: 48, 95

1-3. Hvað gerði ónafngreindi spámaðurinn frá Júda ekki og hverjar voru afleiðingarnar? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

EINHVERN tíma í stjórnartíð Jeróbóams sendi Jehóva spámann frá Júda til að boða þessum fráhverfa konungi Ísraels napran dómsboðskap. Spámaðurinn var auðmjúkur og flutti trúfastlega boðskap Jehóva sem verndaði þjón sinn fyrir heiftarlegri reiði Jeróbóams. – 1. Kon. 13:1-10.

2 Á leiðinni heim hitti spámaðurinn óvænt gamlan mann frá Betel, borg þar í grennd. Maðurinn sagðist vera spámaður Jehóva. Hann blekkti yngri manninn og fékk hann til að óhlýðnast skýrum leiðbeiningum Jehóva um að ,eta hvorki né drekka í Ísrael‘ og að hann ,mætti ekki snúa aftur sömu leið og hann kom‘. Jehóva var ekki ánægður. Á leiðinni heim frá gamla manninum varð ljón á vegi spámannsins og drap hann. – 1. Kon. 13:11-24.

3 Hvers vegna sýndi þessi áður hógværi spámaður allt í einu hroka og fór heim með gamla manninum sviksama? Biblían lætur það ósagt. En það gæti verið að hann hafi hreinlega gleymt að hann átti að ,þjóna Guði í hógværð‘ eða ganga með Guði í hógværð eins og sumar biblíur orða það. (Lestu Míka 6:8.) Í Biblíunni felur hugmyndin um að ganga með Jehóva í sér að treysta honum, styðja drottinvald hans og fylgja leiðsögn hans. Sá sem er hógvær er mjög meðvitaður um að hann getur og þarf að eiga stöðug samskipti við ástríkan og almáttugan föður sinn á himnum. Spámaðurinn hefði getað beðið Jehóva um að skýra fyrirmælin fyrir sér en frásaga Biblíunnar bendir ekki til þess að hann hafi gert það. Stundum þurfum við líka að taka erfiðar ákvarðanir og kannski er ekki ljóst hvaða stefna er sú rétta. Ef við leitum hógvær leiðsagnar Jehóva hjálpar það okkur að forðast alvarleg mistök.

4. Hvað lærum við í þessari grein?

4 Í síðustu grein sáum við hvers vegna það skiptir þjóna Guðs enn þá máli að vera hógværir og hvað það felur í sér. En hvaða aðstæður gætu gert okkur erfitt fyrir að sýna hógværð? Og hvernig getum við þroskað með okkur þennan eftirsóknarverða eiginleika svo að við getum verið hógvær jafnvel þegar á reynir? Til að svara því skoðum við nú þrennar algengar aðstæður þar sem erfitt getur verið að sýna hógværð og könnum hvernig við getum brugðist vel við öllum þessum aðstæðum. – Orðskv. 11:2.

ÞEGAR AÐSTÆÐUR OKKAR BREYTAST

5, 6. Hvernig sýndi Barsillaí hógværð?

5 Breyttar aðstæður eða ný verkefni geta reynt á hógværðina. Þegar Davíð bauð Barsillaí, sem þá var áttræður, að búa við konungshirðina hefur honum eflaust fundist það mikill heiður. Ef hann hefði þegið boð konungsins hefði hann fengið að halda áfram að umgangast hann. En Barsillaí afþakkaði boðið. Hvers vegna? Hann var orðinn háaldraður og sagði konunginum að hann vildi ekki verða honum byrði. Barsillaí lagði því til að Kímham, sem var líklega sonur hans, færi í hans stað. – 2. Sam. 19:32-38.

6 Barsillaí gat tekið skynsamlega ákvörðun vegna þess að hann var hógvær. Hann hafnaði ekki boði Davíðs af því að honum fyndist hann ekki hæfur til að axla ábyrgð eða af því að hann vildi setjast í helgan stein og lifa rólegu lífi. Hann sætti sig einfaldlega við breyttar aðstæður og viðurkenndi takmörk sín. Hann vildi ekki taka á sig meira en hann gæti gert með góðu móti. (Lestu Galatabréfið 6:4, 5.) Ef við einblínum á stöðu, upphefð eða á það að hljóta viðurkenningu skapar það frjóa jörð fyrir sjálfselsku og keppnisanda og veldur að lokum vonbrigðum. (Gal. 5:26) Hógværð hjálpar hins vegar öllum að nota krafta sína og hæfileika til að vinna saman að því að heiðra Jehóva og styðja hver annan. – 1. Kor. 10:31.

7, 8. Hvernig getur hógværð hjálpað okkur að treysta ekki á sjálf okkur?

7 Aukinni ábyrgð fylgir oft aukið vald og þá getur reynt á hógværðina. Þegar Nehemía frétti af ástandi fólksins í Jerúsalem bað hann ákaft til Jehóva. (Neh. 1:4, 11) Jehóva bænheyrði hann þegar Artaxerxes konungur skipaði hann landstjóra yfir það svæði. Þrátt fyrir áhrifastöðu, velmegun og töluvert vald treysti Nehemía aldrei á eigin reynslu eða hæfileika. Hann gekk með Guði. Hann leitaði stöðugt leiðsagnar Jehóva með því að kanna hvað lögmálið sagði. (Neh. 8:1, 8, 9) Nehemía misbeitti aldrei valdi sínu né nýtti sér það í eiginhagsmunaskyni. – Neh. 5:14-19.

8 Við sjáum af fordæmi Nehemía hvernig hógværð aftrar okkur frá því að treysta á sjálf okkur þegar við fáum nýtt verkefni eða aukna ábyrgð. Öldungur gæti treyst á eigin reynslu og farið að sinna safnaðarmálum án þess að leita fyrst til Jehóva í bæn. Aðrir biðja kannski ekki til Jehóva fyrr en þeir eru búnir að taka ákvörðun en vilja þá fá blessun hans. Ber það merki um hógværð? Sá sem er hógvær hefur alltaf í huga stöðu sína frammi fyrir Guði og hlutverk sitt í skipan hans. Það eru ekki hæfileikar okkar sem skipta máli. Við þurfum sérstaklega að gæta þess að treysta ekki á sjálf okkur þegar við tökumst á við aðstæður og vandamál sem við þekkjum vel. (Lestu Orðskviðina 3:5, 6.) Við sem þjónum Jehóva lærum að hugsa um hlutverk okkar í fjölskyldunni og í söfnuðinum frekar en að sækjast eftir ákveðinni stöðu eða að klífa metorðastiga. – 1. Tím. 3:15.

ÞEGAR AÐRIR GAGNRÝNA OKKUR EÐA HRÓSA

9, 10. Hvernig getur hógværð hjálpað okkur að bregðast rétt við ósanngjarnri gagnrýni?

9 Það getur verið erfitt að hafa stjórn á tilfinningunum þegar við sætum ósanngjarnri gagnrýni. Hanna grét oft vegna þess að Peninna hæddist stöðugt að henni. Eiginmaður Hönnu elskaði hana en hún var samt óhamingjusöm því að hún gat ekki eignast börn. Eitt sinn, þegar hún var að biðja í musterinu, ásakaði Elí æðstiprestur hana ranglega um að vera drukkin. Hugsaðu þér! En þrátt fyrir það var Hanna hógvær. Hún hélt aftur af sér og svaraði Elí af virðingu. Hjartnæm bæn hennar er skráð í Biblíunni en hún lýsir sterkri trú Hönnu og kærleika til Jehóva. – 1. Sam. 1:5-7, 12-16; 2:1-10.

10 Hógværð getur líka hjálpað okkur að ,sigra illt með góðu‘. (Rómv. 12:21) Lífið í heimi Satans er oft ósanngjarnt og við þurfum að gæta þess að láta ekki hegðun illra manna reita okkur til reiði. (Sálm. 37:1) Þegar missætti kemur upp milli trúsystkina getur sársaukinn verið enn meiri. En sá sem er hógvær líkir eftir Jesú. Í Biblíunni segir: „Hann svaraði ekki með illmælum er honum var illmælt ... heldur fól það honum á vald sem dæmir réttvíslega.“ (1. Pét. 2:23) Jesús vissi að það væri undir Jehóva komið að hefna. (Rómv. 12:19) Kristnir menn eru líka hvattir til að vera auðmjúkir og ,gjalda ekki illt með illu‘. – 1. Pét. 3:8, 9.

11, 12. (a) Hvernig getur hógværð hjálpað okkur að bregðast skynsamlega við hrósi eða smjaðri? (b) Hvernig getum við sýnt hógværð með klæðaburði okkar og hegðun?

11 Það getur einnig reynt á hógværðina þegar fólk hrósar okkur eða jafnvel smjaðrar fyrir okkur. Ester brást skynsamlega við slíkum aðstæðum. Hún var einstaklega fögur og í heilt ár var dekrað við hana með sérstökum fegrunarmeðferðum. Daglega umgekkst hún margar ungar konur alls staðar að úr Persaveldi sem kepptust um athygli konungs. Að lokum valdi konungurinn Ester að drottningu. En athyglin, sem hún fékk, steig henni ekki til höfuðs. Hún varð ekki hégómafull og drambsöm heldur var áfram yfirveguð og sýndi öðrum virðingu. – Est. 2:9, 12, 15, 17.

Sýnir fataval okkar og útlit að við virðum Jehóva og aðra eða ber það merki um að okkur skorti hógværð? (Sjá 12. grein.)

12 Ef við erum hógvær klæðum við okkur og hegðum okkur með viðeigandi og virðulegum hætti. Við áttum okkur á að ,hógvær og hljóðlátur andi‘ gerir okkur aðlaðandi í augum annarra en ekki það að monta okkur eða draga óviðeigandi athygli að sjálfum okkur. (Lestu 1. Pétursbréf 3:3, 4; Jer. 9:22, 23) Ef við erum hégómagjörn kemur það að lokum fram í verkum okkar. Við ýjum kannski að því að við höfum ákveðna stöðu, vitum meira en aðrir eða þekkjum vel bræður í ábyrgðarstöðum. Við gætum útskýrt eitthvað þannig að við ein hljótum heiðurinn af hugmyndum eða afrekum sem aðrir hafa líka átt hlut að. Jesús er okkur frábær fyrirmynd, einnig á þessu sviði. Stór hluti þess sem hann sagði var annaðhvort tilvitnun eða vísun í Hebresku ritningarnar. Hann var hógvær og vildi að áheyrendur sínir skildu að það sem hann sagði væri frá Jehóva komið en stafaði ekki af hans eigin visku. – Jóh. 8:28.

ÞEGAR VIÐ TÖKUM ÁKVARÐANIR

13, 14. Hvernig getur hógværð hjálpað okkur að taka góðar ákvarðanir?

13 Það getur líka reynt á hógværðina þegar við tökum ákvarðanir. Þegar Páll postuli var í Sesareu sagði Agabus spámaður honum að ef hann færi áfram til Jerúsalem yrði hann handtekinn. Hann gæti jafnvel verið tekinn af lífi. Trúsystkini Páls óttuðust hið versta og þrábáðu hann að fara ekki þangað. En þeim tókst ekki að telja honum hughvarf. Hann var hvorki sjálfsöruggur um of né lét hann óttann ná tökum á sér. Hann treysti algerlega á Jehóva og var tilbúinn að fara hvert sem Jehóva vildi að hann færi. Þegar trúsystkini hans sáu það sýndu þau líka hógværð og studdu ákvörðun hans að fara til Jerúsalem. – Post. 21:10-14.

14 Hógværð getur hjálpað okkur að taka góðar ákvarðanir þó að við vitum ekki hvernig allt fer eða höfum ekki stjórn á því. Ef við til dæmis hefjum fullt starf í þjónustunni við Jehóva vitum við ekki hvernig fer ef við veikjumst. Hvað ef foreldrar okkar veikjast og þurfa á aðstoð okkar að halda? Hvernig eigum við að sjá fyrir okkur í ellinni? Við getum ekki fengið endanlegt svar við slíkum spurningum, sama hve mikið við biðjum eða lesum í ritunum okkar. (Préd. 8:16, 17) Traust okkar á Jehóva hjálpar okkur bæði að viðurkenna og sætta okkur við takmarkanir okkar. Þegar við höfum lesið okkur til, spurt aðra ráða og beðið Jehóva um leiðsögn þurfum við að stíga ákveðin skref í þá átt sem andi hans leiðir okkur. (Lestu Prédikarann 11:4-6.) Þá getur Jehóva blessað ákvörðun okkar eða beint okkur í aðra átt. – Orðskv. 16:3, 9.

HVERNIG GETUM VIÐ ÞROSKAÐ MEÐ OKKUR HÓGVÆRÐ?

15. Hvernig hjálpar það okkur að vera auðmjúk að hugleiða eiginleika Jehóva og stöðu?

15 Það hefur greinilega marga kosti að sýna hógværð. En hvernig getum við þroskað með okkur þennan eiginleika? Skoðum fjórar leiðir til þess. Í fyrsta lagi getum við þroskað með okkur hógværð og lotningu fyrir Jehóva með því að hugleiða eiginleika hans og hve miklu æðri hann er okkur. (Jes. 8:13) Munum að við göngum með almáttugum Guði en ekki með englum eða mönnum. Sú vitneskja hvetur okkur til að vera auðmjúk og ,beygja okkur undir Guðs voldugu hönd‘. – 1. Pét. 5:6.

16. Hvernig hvetur það okkur til að vera hógvær að hugleiða kærleika Guðs?

16 Í öðru lagi hjálpar það okkur að vera hógvær að hugleiða kærleika Jehóva. Páll postuli skrifaði að Jehóva veitti óvirðulegri limum líkamans „meiri sæmd“. (1. Kor. 12:23, 24) Jehóva er sömuleiðis annt um hvert og eitt okkar þrátt fyrir takmarkanir okkar. Hann ber okkur ekki saman við aðra og neitar okkur ekki um kærleika sinn þegar okkur verður eitthvað á. Vegna kærleika Jehóva getum við fundið til öryggis, sama hvaða hlutverki við gegnum í alheimsfjölskyldu hans.

17. Hvaða áhrif hefur það á okkur að leita að hinu góða í fari annarra?

17 Í þriðja lagi kunnum við betur að meta hlutverk okkar í þjónustu Jehóva þegar við leitum að hinu góða í fari annarra, rétt eins og hann gerir. Við verðum þá fúsari til að leita ráða hjá öðrum og hlusta á tillögur þeirra í stað þess að sækjast eftir að vera í sviðsljósinu eða segja þeim fyrir verkum. (Orðskv. 13:10) Við samgleðjumst þeim þegar þeir hljóta ný verkefni. Og við lofum Jehóva þegar við sjáum hvernig hann blessar söfnuðinn í heild. – 1. Pét. 5:9.

18. Hvernig getum við fengið næmari samvisku og sómatilfinningu?

18 Í fjórða lagi verður sómatilfinningin næmari þegar við þjálfum samviskuna í samræmi við meginreglur Biblíunnar. Við verðum fær um að sýna góða dómgreind ef við lærum að sjá hlutina frá sjónarhóli Jehóva. Með reglulegu biblíunámi og bænum og með því að tileinka okkur það sem við lærum styrkjum við samviskuna smám saman. (1. Tím. 1:5) Við lærum að taka aðra fram yfir sjálf okkur. Ef við leggjum okkar af mörkum lofar Jehóva að ,fullkomna okkur‘, hjálpa okkur að þroska með okkur hógværð og aðra góða eiginleika. – 1. Pét. 5:10.

19. Hvað getur hjálpað okkur að vera hógvær um alla eilífð?

19 Ónafngreindi spámaðurinn frá Júda sýndi hroka við eitt tækifæri og það kostaði hann lífið og velþóknun Guðs. En það er hægt að vera hógvær þegar á reynir. Við höfum mörg dæmi um trúa þjóna Guðs sem sanna það. Því lengur sem við göngum með Jehóva þeim mun hógværari ættum við að verða. (Orðskv. 8:13) Að ganga með Jehóva er óviðjafnanlegur heiður, sama hverjar aðstæður okkar eru. Metum það mikils og gerum okkar ýtrasta til að ganga með Guði í hógværð um alla eilífð.