Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

1 Hjálp til að komast hjá vandamálum

1 Hjálp til að komast hjá vandamálum

Biblían segist gefa ráð sem eru innblásin og ‚nytsöm til fræðslu, umvöndunar og leiðréttingar‘. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Eru þau það? Skoðum hvernig viskan í Biblíunni hefur hjálpað fólki að koma í veg fyrir að erfið vandamál festu rætur.

MISNOTKUN ÁFENGIS

Daníella, sem minnst var á í síðustu grein, var áhyggjufull og kvíðin og fannst það leiða til þess að hún drykki of mikið. Í Biblíunni er hófleg notkun áfengis ekki fordæmd en þar er þó þessi viðvörun: „Vertu ekki með drykkjurútum.“ (Orðskviðirnir 23:20) Tengja má misnotkun áfengis við alvarlega sjúkdóma, erfiðleika í samböndum og milljónir dauðsfalla á ári hverju. Hægt er að komast hjá mörgu af þessu með því að fylgja viturlegum ráðleggingum Biblíunnar.

Daníella gerði það. Hún segir: „Ég gerði mér grein fyrir að ég losnaði ekki við áhyggjurnar með því að drekka. Ég tók til mín þessi viturlegu orð í Filippíbréfinu 4:6, 7: ‚Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði.‘ Þau kvöld sem neikvæðar hugsanir voru að ná tökum á mér bað ég til Jehóva *. Ég sagði honum í smáatriðum frá tilfinningum mínum, þar á meðal reiðinni, sársaukanum og örvæntingunni. Og ég sárbændi hann að hjálpa mér að verða jákvæðari. Morguninn eftir var ég ákveðin í að dvelja ekki við þessar tilfinningar. Sú venja að biðja til Jehóva hjálpaði mér að einbeita mér að því sem ég átti frekar en því sem ég átti ekki. Ég ákvað að bragða ekki áfengi framar. Friðurinn, sem ég fann fyrir, var hreinlega of verðmætur til að taka þá áhættu að missa hann.“

KYNFERÐISLEGT SIÐLEYSI

Fátt veldur jafnmiklum harmi og sársauka og kynferðislegt siðleysi. Meginreglur Biblíunnar geta hjálpað okkur að forðast slíka erfiðleika vegna þess að hún tekur á rót vandans – svo sem klámi og óviðeigandi daðri. „Það var svo auðvelt að daðra,“ segir ungur maður að nafni Samúel. „Stundum sá ég að stelpa var hrifin af mér þó að ég laðaðist ekki að henni. Þá gat verið gaman að daðra við hana.“ Samúel var oft sakaður um að daðra, jafnvel án þess að hann ætlaði sér það. Hann ákvað því að notfæra sér daðrið. En samviskan þjakaði hann. Hann segir: „Þetta var skaðleg hegðun vegna þess að hún ýtir undir eigingjarnar tilhneigingar.“

Samúel las grein fyrir ungt fólk á vefsíðunni jw.org. Hann hugleiddi Orðskviðina 20:11 en þar stendur: „Jafnvel má þekkja af verkum barnsins hvort athafnir þess eru hreinar og einlægar.“ Hvernig hjálpaði það honum? Hann áttaði sig á að það var ekkert hreint eða einlægt við daðrið. Hann segir: „Ég gerði mér grein fyrir að unglingur, sem daðrar, þróar með sér eiginleika sem eiga ekki heima í hjónabandi. Ég fór að velta fyrir mér hvernig það yrði ef ég gifti mig. Hvernig myndi konunni minni líða ef hún sæi mig daðra við aðra konu? Þá áttaði ég mig á að daður er ekki skaðlaust. Þó að það sé auðvelt að daðra er ekki þar með sagt að það sé í lagi.“ Samúel breytti hegðun sinni. Að hætta að daðra hefur líka varið hann gegn kynferðislegu siðleysi.

Anton var kominn út á enn hættulegri braut. Hann var háður klámi. Hann féll aftur og aftur þó að hann væri giftur og elskaði konuna sína heitt. Hann segir að það hafi hjálpað sér að hugleiða 1. Pétursbréf 5:8: „Verið algáð, vakið. Óvinur ykkar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur tortímt.“ Anton segir: „Klámfengnar myndir eru allt í kringum okkur nú til dags og þær geta setið fastar í huganum. Versið hjálpaði mér að hugsa um hver væri uppspretta þessara freistinga. Ég þurfti að venja mig á að tengja klúrar myndir strax við fyrirlitlegan uppruna sinn, Satan djöfulinn. Núna skil ég að Jehóva einn getur hjálpað mér að ‚vera algáður og vaka‘ svo að ég geti varist þessum árásum á hugann, hjartað og hjónabandið.“ Anton fékk þá aðstoð sem hann þurfti og tókst að lokum að sigrast á fíkninni. Þannig hefur hann komist hjá enn stærri vandamálum.

Hagnýt ráð Biblíunnar geta augljóslega hjálpað okkur að komast hjá alvarlegum vandamálum. En hvað ef við eigum við rótgróinn vanda að etja sem okkur reynist erfitt að leysa? Lítum á hvernig orð Guðs getur hjálpað okkur að leysa erfið mál af slíku tagi.

Hagnýt leiðsögn Biblíunnar getur hjálpað okkur að komast hjá mörgum vandamálum.

^ gr. 5 Jehóva er nafn Guðs samkvæmt frummálum Biblíunnar. – 2. Mósebók 6:3, neðanmáls.