Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS

Ég lærði að bera virðingu fyrir konum og sjálfum mér

Ég lærði að bera virðingu fyrir konum og sjálfum mér
  • FÆÐINGARÁR: 1960

  • FÖÐURLAND: FRAKKLAND

  • FORSAGA: OFBELDISFULLUR FÍKNIEFNANEYTANDI SEM LEIT NIÐUR Á KONUR

FORTÍÐ MÍN:

Ég fæddist í verkamannahverfi í borginni Mulhouse í norðausturhluta Frakklands. Hverfið var þekkt fyrir ofbeldi. Ofbeldisfullar deilur fjölskyldna í hverfinu einkenna æskuminningar mínar. Í fjölskyldu okkar var litið niður á konur og þær voru sárasjaldan spurðar álits. Hlutverk konunnar var að sjá um eldamennsku og hugsa um mann og börn.

Uppvaxtarárin voru ekki auðveld. Pabbi var alkóhólisti og dó af þeim sökum þegar ég var tíu ára. Annar bræðra minna svipti sig lífi fimm árum síðar. Sama ár varð ég vitni að morði þegar fjölskyldan átti í illdeilum. Það var mikið áfall fyrir mig. Ættingjar kenndu mér að nota hnífa og byssur og berjast hvenær sem þörf krefðist. Ég var í miklu ójafnvægi, safnaði húðflúrum um allan skrokkinn og drakk stíft.

Sextán ára var ég farinn að drekka 10 til 15 bjóra á dag og áður en langt um leið fór ég að neyta fíkniefna. Til að fjármagna neysluna seldi ég brotamálma og stal. Sautján ára hafði ég þegar setið í fangelsi. Ég hlaut samanlagt 18 dóma fyrir þjófnaði og ofbeldi.

Ástandið versnaði enn frekar upp úr tvítugu. Ég reykti allt að 20 marijúana-sígarettur á dag og neytti þar að auki heróíns og annarra fíkniefna. Nokkrum sinnum var ég hætt kominn af of stórum skammti. Ég fór að selja fíkniefni og var því alltaf vopnaður hnífum og byssum. Einu sinni reyndi ég að skjóta mann, en sem betur fer hrökk kúlan af beltissylgjunni hans. Mamma dó þegar ég var 24 ára og ég varð enn ofsafengnari en áður. Fólk var svo hrætt við mig að það gekk yfir á hinn vegarhelminginn til að þurfa ekki að mæta mér. Ég átti í stöðugum útistöðum við aðra og þess vegna eyddi ég helgunum oft á lögreglustöðinni eða á sjúkrahúsi þar sem gert var að sárum mínum.

Ég gifti mig 28 ára. Eins og við mátti búast sýndi ég konunni minni litla virðingu. Ég gerði lítið úr henni og barði hana. Við gerðum ekkert saman sem hjón. Ég hélt að það væri nóg að ausa í hana stolnum skartgripum. Þá gerðist dálítið óvænt. Konan mín fór að kynna sér Biblíuna með hjálp votta Jehóva. Eftir fyrstu námsstundina hætti hún að reykja, neitaði að taka við stolnum peningum frá mér og skilaði mér skartgripunum. Ég varð fokvondur. Ég setti mig upp á móti því að hún væri að kynna sér Biblíuna og blés sígarettureyk framan í hana. Þar að auki gerði ég gys að henni um allt hverfið.

Eitt kvöldið var ég í drykkjumóki og kveikti óvart í íbúðinni. Konan mín bjargaði mér og fimm ára dóttur okkar úr eldinum. Þegar rann af mér fylltist ég sektarkennd. Innst inni fannst mér að Guð gæti aldrei fyrirgefið mér. Ég mundi eftir að hafa heyrt prest segja að hinir illu færu til helvítis. Og geðlæknirinn minn sagði meira að segja: „Þú ert búinn að vera! Þér er ekki viðbjargandi.“

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU:

Eftir eldsvoðann fluttum við inn á tengdaforeldra mína. Þegar vottarnir heimsóttu konuna mína spurði ég þá: „Getur Guð fyrirgefið mér allt sem ég hef gert af mér?“ Þeir sýndu mér 1. Korintubréf 6:9-11 í Biblíunni. Þar er talin upp ýmis hegðun sem Guð fordæmir en síðan segir: „Þannig voruð þið sumir hverjir.“ Þessi orð veittu mér vissu fyrir því að ég gæti breytt mér. Síðan fullvissuðu vottarnir mig um að Guði þætti vænt um mig og sýndu mér 1. Jóhannesarbréf 4:8. Það uppörvaði mig og ég bað þá að koma tvisvar í viku til að fræða mig um Biblíuna. Ég fór einnig að sækja samkomur þeirra. Ég bað stöðugt til Jehóva.

Áður en mánuður var liðinn ákvað ég að hætta að drekka og neyta fíkniefna. Fljótlega leið mér eins og styrjöld hefði brotist út innan í mér. Ég fékk hræðilegar martraðir, höfuðverki, krampa og önnur fráhvarfseinkenni. En á sama tíma fann ég að Jehóva hélt í höndina á mér og gaf mér styrk. Mér leið eins og Páli postula en hann sagði um hjálpina sem Guð gaf honum: „Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir.“ (Filippíbréfið 4:13) Með tímanum tókst mér líka að hætta að reykja. – 2. Korintubréf 7:1.

Biblían hefur ekki aðeins hjálpað mér að ná tökum á lífinu heldur hefur hún einnig gert fjölskyldulífið betra. Viðhorf mitt til konunnar minnar er breytt. Ég lærði að bera virðingu fyrir henni, vera kurteis og þakka fyrir mig. Ég fór að sinna dóttur okkar eins og feður eiga að gera. Eftir eins árs biblíunám fetaði ég í fótspor konunnar minnar, vígði líf mitt Jehóva og lét skírast.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS:

Ég er sannfærður um að Biblían bjargaði lífi mínu. Ættingjar mínir, sem eru ekki vottar, gera sér jafnvel grein fyrir að ég væri sennilega dáinn úr ofneyslu eða hefði verið drepinn í slagsmálum ef ég hefði ekki kynnst Biblíunni.

Skyldur eiginmanna og feðra eru útlistaðar í Biblíunni og það hefur gerbreytt fjölskyldulífi okkar að fara eftir þeim. (Efesusbréfið 5:25; 6:4) Við gerum margt saman sem fjölskylda. Ég lít ekki lengur á konuna mína sem eldabusku heldur styð ég hana fúslega þegar hún boðar trúna í fullu starfi. Og hún styður mig með glöðu geði í starfi mínu sem öldungur í söfnuðinum.

Kærleikur og miskunn Jehóva Guðs hafa haft djúpstæð áhrif á líf mitt. Ég hef mikla ánægju af að tala um eiginleika Guðs við þá sem fólk telur ekki viðbjargandi, því að margir litu þannig á mig. Ég veit að Biblían getur hjálpað hverjum sem er að breyta um stefnu og lifa hreinu og innihaldsríku lífi. Biblían hefur ekki aðeins kennt mér að elska og virða aðra, bæði karla og konur, heldur hefur hún líka hjálpað mér að virða sjálfan mig.