Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þau buðu sig fúslega fram – í Brasilíu

Þau buðu sig fúslega fram – í Brasilíu

ÞRÍTUG systir, Rúbia, að nafni, heimsótti fyrir nokkrum árum Söndru, vinkonu sína, en hún starfaði þá sem brautryðjandi í litlum söfnuði í suðurhluta Brasilíu. Meðan Rúbia var þar gerðist svolítið sem hafði svo sterk áhrif á hana að líf hennar gerbreyttist. Hvað gerðist? Leyfum Rúbiu sjálfri að svara því.

„ÉG TRÚÐI EKKI MÍNUM EIGIN EYRUM“

„Ég fór með Söndru til konu sem var í biblíunámi hjá henni. Í miðri námsstundinni sagði konan upp úr þurru: ,Sandra, það vinna með mér þrjár stelpur sem langar til að kynna sér Biblíuna en ég sagði þeim að þær yrðu að bíða eftir að röðin kæmi að þeim. Ég veit að það er fullbókað hjá þér út árið.‘ Ég trúði ekki mínum eigin eyrum. Það þurfti að setja fólk, sem langaði til að kynnast Jehóva, á biðlista! Í söfnuðinum mínum átti ég í vandræðum með að finna eina manneskju sem vildi kynna sér Biblíuna. Þar á staðnum, á heimili þessa biblíunemanda, vaknaði með mér sterk löngun til að hjálpa fólki í þessum litla bæ. Skömmu síðar flutti ég frá stórborginni, þar sem ég bjó, til bæjarins þar sem Sandra var brautryðjandi.“

Hvernig gekk Rúbiu? „Á innan við tveim mánuðum var ég komin með 15 biblíunemendur,“ segir hún. „Og hvort sem þið trúið því eða ekki var ég komin með biðlista áður en langt um leið, rétt eins og Sandra.“

ÞAÐ VAKTI HANN TIL UMHUGSUNAR UM BOÐUNARSTARFIÐ

Diego er rúmlega tvítugur bróðir. Hann heimsótti tvo brautryðjendur í Prudentópolis, litlum bæ í sunnanverðri Brasilíu. Heimsóknin hafði djúpstæð áhrif á hann, svo djúpstæð að hann fór að hugsa um sína eigin þátttöku í boðunarstarfinu. Hann segir sjálfur: „Ég lafði svona með í söfnuðinum og starfaði fáeina tíma í mánuði. En þegar ég heimsótti þessa brautryðjendur og hlustaði á frásögur þeirra gat ég ekki annað en hugsað um hve mikla ánægju þeir höfðu af boðunarstarfinu í samanburði við mig sem sinnti því af litlum áhuga. Þegar ég sá hve glaðir og áhugasamir þeir voru óskaði ég þess að líf mitt væri svona innihaldsríkt.“ Í framhaldi af því gerðist Diego brautryðjandi.

Ertu ungur vottur sem tekur þátt í boðunarstarfinu og sækir samkomur eins og Diego en finnst starfið ekki sérlega skemmtilegt? Geturðu þá hagrætt málum þínum þannig að þú getir starfað þar sem vantar fleiri boðbera og notið gleðinnar sem fylgir því? Það er eðlilegt að þú sért smeykur við að snúa baki við þeim þægindum sem þú hefur. Margt ungt fólk hefur samt kosið að gera það. Það hefur þorað að setja sér ný markmið til að geta gert meira í þjónustu Jehóva. Bruno er annað dæmi um það.

TÓNLISTIN EÐA BOÐUNIN?

Bruno er 28 ára. Fyrir nokkrum árum stundaði hann nám við frægan tónlistarskóla með það að markmiði að verða hljómsveitarstjóri. Svo vel sóttist honum námið að honum var nokkrum sinnum boðið að stjórna sinfóníuhljómsveit. Eftir öllum sólarmerkjum að dæma átti hann fyrir sér frægð og frama í tónlistinni. „Mér fannst samt eitthvað vanta hjá mér í lífinu,“ segir hann. „Ég var vígður Jehóva en ég vissi að ég var ekki að gefa honum allt sem ég gat, og það angraði mig. Ég sagði Jehóva í bæn hvernig mér var innanbrjósts og ræddi einnig við reynda bræður í söfnuðinum. Eftir að hafa hugleitt málið vandlega ákvað ég að láta boðunina ganga fyrir tónlistinni. Ég hætti í tónlistarskólanum og réðst í það stórvirki að flytja á svæði þar sem var mikil þörf fyrir fleiri boðbera.“ Hvaða áhrif hafði þessi ákvörðun?

Bruno flutti til 7.000 manna bæjar sem heitir Guapiara, um 260 kílómetra frá São Paulo. Það var töluverð breyting fyrir hann. „Ég flutti í lítið hús þar sem hvorki var ísskápur, sjónvarp né nettenging,“ segir hann. „Húsinu fylgdi hins vegar matjurtagarður og ávaxtatré – og það hafði ég aldrei haft áður.“ Þarna starfaði hann með litlum söfnuði. Einu sinni í viku tók hann með sér nesti, vatn og rit og fór á mótorhjólinu sínu út í sveit til að prédika. Margir þar um slóðir höfðu aldrei heyrt fagnaðarerindið. „Ég var með allt að 18 biblíunámskeið í gangi,“ segir hann. „Það var ólýsanleg gleði að sjá þessa nemendur breyta lífi sínu.“ Síðan bætir hann við: „Ég áttaði mig á að ég var búinn að finna það sem hafði vantað hjá mér í lífinu. Það var hin djúpstæða ánægja sem fylgir því að láta þjónustuna við Jehóva ganga fyrir. Ég hefði aldrei upplifað þessa gleði ef efnishyggjan hefði ráðið ferðinni hjá mér.“ Og hvernig sá Bruno fyrir sér í Guapiara? „Ég kenndi á gítar,“ segir hann og brosir. Hann var enn í tónlistinni þegar öllu var á botninn hvolft.

„ÉG GAT BARA EKKI FARIГ

Mariana stóð í svipuðum sporum og Bruno en hún er tæplega þrítug. Hún var lögfræðingur en þótt hún hefði góðar tekjur var hún ekki ánægð. „Mér fannst ég vera að ,sækjast eftir vindi‘,“ segir hún. (Préd. 1:17) Ýmsir bræður og systur hvöttu hana til að íhuga hvort hún gæti gerst brautryðjandi. Eftir að hafa hugleitt málið ákvað hún, ásamt Biöncu, Caroline og Juliönu vinkonum sínum, að aðstoða söfnuð í Barra do Bugres. Þetta er afskekktur bær nálægt landamærum Bólivíu og mörg hundruð kílómetra að heiman. Hvað gerðist í framhaldi af því?

„Ég hafði ætlað mér að vera þarna í þrjá mánuði,“ segir Mariana. „En að þeim tíma loknum var ég komin með 15 biblíunemendur. Þessir nemendur þurftu auðvitað heilmikla aðstoð til viðbótar til að taka framförum í trúnni. Ég hafði ekki brjóst í mér að segja þeim að ég væri á förum. Ég gat bara ekki farið.“ Sömu sögu er að segja um hinar systurnar þrjár. Varð lífið innihaldsríkara hjá Mariönu á þessum nýja vettvangi? „Það er góð tilfinning að Jehóva skuli nota mig til að hjálpa fólki að breyta sér til hins betra,“ segir hún. „Það er blessun fyrir mig að vita að ég skuli núna nota tíma minn og krafta til að gera eitthvað sem skiptir máli.“ Caroline talar fyrir munn allra systranna fjögurra þegar hún segir: „Ég er innilega hamingjusöm þegar ég hátta á kvöldin af því að ég veit að ég hef lagt mig alla fram í þjónustu Jehóva. Ég er upptekin af því að hjálpa biblíunemendunum og það er frábært að sjá þá taka framförum. Ég hef kynnst af eigin raun því sem segir í Sálmi 34:9: ,Finnið og sjáið að Drottinn er góður.‘“

Það hlýtur að gleðja Jehóva að sjá æ fleiri unga bræður og systur um heim allan bjóða sig fúslega fram til að boða fagnaðarerindið um ríkið á afskekktum slóðum. (Sálm. 110:3; Orðskv. 27:11) Og hann blessar ríkulega alla þessa fúsu verkamenn. – Orðskv. 10:22.