Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS

„Mörgum var verulega illa við mig“

„Mörgum var verulega illa við mig“
  • FÆÐINGARÁR: 1978

  • FÖÐURLAND: SÍLE

  • FORSAGA: MJÖG OFBELDISFULLUR

FORTÍÐ MÍN:

Ég ólst upp í úthverfi Santíagó, höfuðborgar Síle, þar sem mikið var um eiturlyf, götugengi og glæpi. Þegar ég var fimm ára var faðir minn myrtur. Þá fór móðir mín að búa með manni sem kom mjög illa fram við okkur. Hann lagði oft hendur á okkur mömmu. Ég er enn að glíma við tilfinningalegar afleiðingar þess tíma.

Á uppvaxtarárunum varð ég mjög ofbeldisfullur vegna þessara neikvæðu áhrifa. Ég hlustaði á þungarokk, drakk mikið og neytti stundum eiturlyfja. Ég lenti oft í áflogum við eiturlyfjasala sem reyndu nokkrum sinnum að drepa mig. Eitt sinn fékk óvinaklíka alræmdan leigumorðingja til að drepa mig en ég slapp frá honum með stungusár. Við annað tækifæri beindi hópur eiturlyfjasala að mér byssu og reyndi að hengja mig.

Árið 1996 varð ég ástfanginn af konu sem heitir Carolina og tveimur árum seinna gengum við í hjónaband. Eftir að fyrsti sonur okkar fæddist var ég dauðhræddur um að verða eins ofbeldisfullur og stjúpfaðir minn og leika fjölskyldu mína grátt. Ég leitaði því hjálpar á meðferðarstofnun. Þar fékk ég bæði læknisaðstoð og einstaklingsmeðferð en það dugði ekki til. Ég hafði enga stjórn á skapinu og lét allt fara í taugarnar á mér. Ég vildi ekki halda áfram að gera fjölskyldu minni mein og reyndi því í örvæntingu að binda enda á líf mitt. Sem betur fer tókst mér það ekki.

Ég hafði verið trúleysingi um árabil en mig langaði til að trúa á Guð. Ég gekk því í evangelísku kirkjuna um tíma. Um svipað leyti var konan mín að rannsaka Biblíuna með vottum Jehóva. Mér var meinilla við vottana og hreytti oft í þá ljótum orðum en þeir svöruðu aldrei í sömu mynt heldur héldu ró sinni. Ég átti alls ekki von á því.

Dag einn bað Carolina mig um að fletta upp á Sálmi 83:18 í biblíunni minni. Þar stóð skýrum stöfum að nafn Guðs er Jehóva. Það kom mér á óvart því að í kirkjunni minni hafði ég lært um einhvern guð en ekki um Jehóva. Snemma árs 2000 ákvað ég að þiggja líka biblíunámskeið hjá Vottum Jehóva.

BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU:

Þegar biblíunáminu miðaði áfram áttaði ég mig á að Jehóva er umhyggjusamur og og miskunnsamur Guð. Það fannst mér hughreystandi. Í 2. Mósebók 34:6, 7 er til dæmis sagt: Jehóva er „miskunnsamur og náðugur Guð, seinn til reiði, gæskuríkur og trúfastur. Hann sýnir þúsundum gæsku, fyrirgefur misgjörðir, afbrot og syndir.“

En ég átti ekki auðvelt með að tileinka mér það sem ég lærði. Ég var viss um að ég næði aldrei tökum á skapinu. En í hvert sinn sem mér varð á veitti Carolina mér þá hvatningu sem ég þurfti á að halda. Hún minnti mig á að Jehóva tæki eftir viðleitni minni. Stuðningur hennar veitti mér nægan styrk til að halda áfram að gleðja Jehóva þótt ég væri oft að gefast upp á sjálfum mér.

Alejandro, biblíukennarinn minn, bað mig dag einn um að lesa Galatabréfið 5:22, 23. Í þessum versum segir að ávöxtur anda Guðs sé „kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi“. Alejandro útskýrði fyrir mér að til þess að þroska með mér þessa eiginleika þyrfti ég að treysta á heilagan anda Guðs í stað þess að reyna að gera það í eigin krafti. Þessi sannleikur breytti viðhorfi mínu til muna.

Síðar fór ég á stórmót hjá Vottum Jehóva. Skipulagningin, hreinlætið og bróðurkærleikurinn, sem ég varð vitni að, sannfærði mig um að ég hefði fundið hina sönnu trú. (Jóhannes 13:34, 35) Ég var skírður í febrúar 2001.

LÍFIÐ HEFUR BREYST TIL HINS BETRA:

Jehóva hefur gerbreytt mér. Áður var ég ofbeldisfullur maður en nú er ég friðsamur. Mér líður eins og hann hafi dregið mig upp úr forarpytti þar sem ég sat fastur. Mörgum var verulega illa við mig og ég lái þeim það ekki. Núna nýt ég þess að þjóna Jehóva ásamt konunni minni og tveimur sonum okkar.

Ættingjar mínir og gömlu félagarnir eiga ekki orð yfir breytingarnar sem ég hef tekið. Í kjölfarið hafa margir þeirra viljað kynna sér sannleika Biblíunnar. Ég hef líka fengið að njóta þeirrar gleði að fá að hjálpa öðrum að kynnast Jehóva. Það hefur veitt mér mikla ánægju að sjá sannleika Biblíunnar breyta lífi þeirra eins og mínu.