Hoppa beint í efnið

Kennir Biblían að jörðin sé flöt?

Kennir Biblían að jörðin sé flöt?

Svar Biblíunnar

 Nei, Biblían kennir ekki að jörðin sé flöt. a Þó að Biblían sé ekki kennslubók í vísindum stangast ekkert í henni á við vísindalegar staðreyndir. Orð Biblíunnar „standa óhagganleg um aldur og ævi“. – Sálmur 111:8.

 Hvað er átt við með „heimshornunum fjórum“ í Biblíunni?

 Í Biblíunni er talað um ,heimshornin fjögur‘ og ,endimörk jarðar‘. (Jesaja 11:12; Jobsbók 37:3) En það ætti ekki að taka þessi orð bókstaflega, eins og jörðin væri ferhyrnd eða með ákveðin mörk þar sem hún tæki enda. Þetta er greinilega myndmál sem á við um alla jörðina. Í Biblíunni er talað á svipaðan hátt um höfuðáttirnar fjórar. – Lúkas 13:29.

 Hebresku orðin sem eru þýdd ,heimshorn‘ og ,endimörk‘ virðast vera myndmál sem er byggt á orðinu ,vængir‘. Í biblíualfræðibókinni The International Standard Bible Encyclopedia segir: „Vegna þess að fuglar nota vængina til að breiða yfir unga sína hefur [hebreska orðið] verið notað til að lýsa endimörkum þess sem er breitt út“. Í bókinni er bætt við að í Jobsbók 37:3 og Jesaja 11:12 merki sama orðið „strendur, takmörk eða ystu mörk jarðarinnar“. b

 Hvernig gat Djöfullinn sýnt Jesú öll ríki heims?

 Til að freista Jesú „fór Djöfullinn með hann upp á afar hátt fjall, sýndi honum öll ríki heims og dýrð þeirra“. (Matteus 4:8) Sumir telja að þessi frásaga Biblíunnar gefi í skyn að jörðin sé flöt og hægt sé að sjá allan heiminn frá einum stað. En ,afar háa fjallið‘ sem nefnt er í þessari frásögu virðist ekki eiga við bókstaflegan stað heldur vera myndlíking. Skoðum hvers vegna það er rökrétt ályktun.

  •   Ekkert fjall er til á jörðinni þaðan sem hægt er að sjá öll ríki heims.

  •   Djöfullinn sýndi Jesú ekki bara ríkin sjálf heldur líka „dýrð þeirra“. Slíkt væri ekki hægt að sjá úr mikilli fjarlægð. Djöfullinn virðist því hafa gefið Jesú einhvers konar sýn af þeim, kannski eitthvað í líkingu við það hvernig menn nota skjávarpa til að varpa upp myndum af mismunandi stöðum í heiminum.

  •   Sama frásaga í Lúkasi 4:5 segir að Djöfullinn hafi sýnt Jesú „á augabragði öll ríki jarðar“, sem er ógerlegt venjulegri sjón manns. Það bendir til að Djöfullinn hafi notað eitthvað annað en bókstaflega sjón manns til að freista Jesú.

a Í Biblíunni er sagt að Guð sé „hann sem situr hátt yfir jarðarkringlunni“. (Jesaja 40:22) Sum heimildarrit telja að orðið sem hér er þýtt ,jarðarkringla‘ geti þýtt ,kúla‘ eða ,hnöttur‘, þó ekki séu allir fræðimenn á einu máli um það. Að minnsta kosti styður Biblían ekki þá hugmynd að jörðin sé flöt.

b Endurskoðuð útgáfa, 2. bindi, bls. 4.