Hoppa beint í efnið

Ég þjáist af sektarkennd – getur Biblían veitt mér hugarfrið?

Ég þjáist af sektarkennd – getur Biblían veitt mér hugarfrið?

Svar Biblíunnar

 Já. Biblían getur hjálpað okkur að takast skynsamlega á við sektarkennd. (Sálmur 32:1–5) Ef við höfum gert eitthvað rangt en iðrumst einlæglega mun Guð fyrirgefa okkur og hjálpa okkur að sigrast á sektarkenndinni. (Sálmur 86:5) Biblían sýnir okkur að sektarkennd geti stundum verið gagnleg, hún getur knúið okkur til að leiðrétta ranga stefnu og minnt okkur á að gæta okkar enn betur í framtíðinni. (Sálmur 51:17; Orðskviðirnir 14:9) Hins vegar varar Biblían okkur við of mikilli sektarkennd eins og að dæma okkur vonlaus eða óverðug í augum Guðs. Slík harðneskja gæti leitt til þess að við myndum „bugast af hryggð“. – 2. Korintubréf 2:7.

 Hvað getur valdið sektarkennd?

 Það er margt sem getur valdið sektarkennd hjá okkur. Okkur grunar kannski að við höfum sært einhvern sem okkur þykir vænt um eða að við höfum ekki farið eftir lífsreglu sem okkur finnst mikilvæg. Stundum gætum við fundið til sektarkenndar án þess að vera sek um nokkuð rangt. Ef við setjum okkur til dæmis ósanngjarnan mælikvarða munum við finna til sektarkenndar í hvert skipti sem okkur tekst ekki að fara eftir honum. Þess vegna hvetur Biblían okkur til að gera sanngjarnar kröfur til okkar. – Prédikarinn 7:16.

 Hvernig get ég tekist á við sektarkennd?

 Í stað þess að láta sektarkenndina lama þig skaltu gera það sem þú getur til að leiðrétta málin. En hvernig?

  •   Viðurkenndu mistök þín. Biddu Jehóva a að fyrirgefa þér. (Sálmur 38:18; Lúkas 11:4) Þú getur verið viss um að Guð heyri bæn þína ef þú iðrast einlæglega og ef þú leggur þig fram um að endurtaka ekki misgjörðina. (2. Kroníkubók 33:13; Sálmur 34:18) Hann sér hinn innri mann sem er hulinn mönnum. Þegar Guð sér okkur leggja af ranga breytni „er hann trúr og réttlátur og fyrirgefur okkur syndirnar“. – 1. Jóhannesarbréf 1:9; Orðskviðirnir 28:13.

     Ef þú hefur gert á hlut einhvers þá þarftu eflaust að viðurkenna það og biðja viðkomandi einlæglega afsökunar. Það er ekki alltaf auðvelt. Það gæti útheimt hugrekki og auðmýkt. En einlæg afsökunarbeiðni kemur tvennu til leiðar. Hún léttir af þér þungri byrði og endurheimtir friðinn. – Matteus 3:8; 5:23, 24.

  •   Hugleiddu vers um miskunn Guðs. Skoðaðu til dæmis 1. Jóhannesarbréf 3:19, 20. Hér viðurkennir Biblían að „hjartað kann að dæma okkur“ – það er að segja, að við getum verið of dómhörð við okkur sjálf og jafnvel fundist við ekki verðskulda kærleika Guðs. En þetta vers segir okkur líka að „Guð er meiri en hjarta okkar“. Hvernig þá? Hann sér alla manneskjuna og skilur fyllilega tilfinningar okkar og veikleika. Hann veit líka að við erum fædd ófullkomin og höfum tilhneigingu til að gera það sem rangt er. b (Sálmur 51:5) Þess vegna hafnar hann ekki þeim sem iðrast einlæglega mistaka sinna. – Sálmur 32:5.

  •   Ekki dvelja í fortíðinni. Biblían segir frá mörgum körlum og konum sem gerðu slæma hluti en snérust síðan til betri vegar. Eitt þessara dæma er Sál frá Tarsus sem seinna varð þekktur sem Páll postuli. Hann var Farísei og ofsótti fylgjendur Jesú grimmilega. (Postulasagan 8:3; 9:1, 2, 11) En þegar hann uppgötvaði að hann væri í raun kominn í andstöðu við Guð og Messías, eða Krist, iðraðist hann, breytti um stefnu og varð til fyrirmyndar sem kristinn maður. Páll sá auðvitað eftir fyrri breytni en hann var ekki fastur í fortíðinni. Hann gerði sér grein fyrir hversu mikla miskunn Guð hafði sýnt honum og hann varð kappsamur boðberi trúarinnar og missti aldrei sjónar á voninni um eilíft líf. – Filippíbréfið 3:13, 14.

 Biblíuvers um sektarkennd og fyrirgefningu

 Sálmur 51:17: „Þú hafnar ekki hjarta sem er brotið og kramið.“

 Hvað þýðir það? Guð mun ekki hafna þér vegna mistaka þinna ef þú iðrast af einlægni og harmar að hafa sært hann. Hann er miskunnsamur.

 Orðskviðirnir 28:13: „Sá sem dylur syndir sínar verður ekki farsæll en sá sem játar þær og lætur af þeim hlýtur miskunn.“

 Hvað þýðir það? Ef við viðurkennum syndir okkar fyrir Guði og breytum um stefnu þá fyrirgefur hann okkur.

 Jeremía 31:34: „Ég mun fyrirgefa afbrot þeirra og ekki framar minnast synda þeirra.“

 Hvað þýðir það? Þegar Guð fyrirgefur okkur minnist hann ekki framar á mistök okkar. Miskunn hans er ósvikin.

a Jehóva er nafn Guðs. – 2. Mósebók 6:3.

b Meðfædd tilhneiging okkar til rangrar breytni stafar af syndinni sem við höfum erft frá fyrsta manninum Adam og konu hans Evu. Hann syndgaði gegn Guði og glataði fullkomleika sínum og líka möguleika afkomenda sinna á fullkomnu lífi. – 1. Mósebók 3:17–19; Rómverjabréfið 5:12.