Hoppa beint í efnið

Hvernig get ég fundið hina sönnu trú?

Hvernig get ég fundið hina sönnu trú?

Svar Biblíunnar

 Til að hjálpa okkur að greina á milli þeirra sem ástunda sanna trú og þeirra sem gera það ekki notar Biblían þessa líkingu: „Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum?“ (Matteus 7:16) Rétt eins og þú getur þekkt í sundur vínvið og þyrnirunna af því hvaða ávöxt þeir bera getur þú séð muninn á falskri og sannri trú með því að skoða ávextina, það er að segja verkin. Skoðum eftirfarandi atriði sem einkenna sanna trú.

  1.   Sönn trú er byggð á því sem Biblían segir en ekki heimspeki manna. (Jóhannes 4:24; 17:17) Í Biblíunni lesum við um hvert ástand hinna dánu er og vonina um eilíft líf í paradís á jörð. (Sálmur 37:29; Jesaja 35:5, 6; Esekíel 18:4) Sönn trú afhjúpar falskar kenningar. – Matteus 15:9; 23:27, 28.

  2.   Sönn trú hjálpar fólki að kynnast Guði betur og að þekkja hann með nafni. (2. Mós 6:3; Jesaja 42:8; Jóhannes 17:3, 6) Hún kennir ekki að Guð sé leyndardómur eða að honum sé sama um okkur, heldur að hann vilji að við eignumst náið samband við hann. – Jakobsbréfið 4:8.

  3.   Sönn trú varpar ljósi á hve mikilvægu hlutverki Jesús Kristur gegnir í því að við hljótum náð í augum Guðs. (Postulasagan 4:10, 12) Þeir sem hafa hana hlýða boðum Jesú og leggja sig fram um að líkja eftir honum. – Jóhannes 13:15; 15:14.

  4.   Sönn trú bendir á að Guðsríki sé eina von mannkyns. Þeir sem iðka sanna trú segja öðrum frá Guðsríki. – Matteus 10:7; 24:14.

  5.   Sönn trú fær fólk til að rækta með sér óeigingjarnan kærleika. (Jóhannes 13:35) Hún kennir líka að það beri að virða fólk af öllum þjóðfélagshópum, menningarsamfélögum, þjóðernum eða kynþáttum og þá sem tala önnur tungumál. (Postulasagan 10:34, 35) Vegna kærleika til manna taka þeir sem játa sanna trú ekki þátt í hernaði. – Míka 4:3; 1. Jóhannesarbréf 3:11, 12.

  6.   Sönn trúarbrögð eru ekki með presta á launum og hampa ekki mönnum með heiðursnafnbótum. – Matteus 23:8-12; 1. Pétursbréf 5:2, 3.

  7.   Sönn trú er algerlega hlutlaus í stjórnmálum. (Jóhannes 17:16; 18:36) Þó sýna þeir sem iðka sanna trú yfirvöldum virðingu og hlýðni í samræmi við boð Biblíunnar: „Gjaldið keisaranum [borgaralegum yfirvöldum] það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er.“ – Markús 12:17; Rómverjabréfið 13:1, 2.

  8.   Sönn trú er lífsstefna en ekki bara siðir eða venjur. Þeir sem stunda hana lifa eftir háleitum siðferðisreglum Biblíunnar. (Efesusbréfið 5:3-5; 1. Jóhannesarbréf 3:18) Í stað þess að vera ósveigjanlegir eða strangir tilbiðja þeir glaðir ‚hinn sæla Guð‘. – 1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912.

  9.   Þeir sem ástunda sanna trú eru í minnihluta. (Matteus 7:13, 14) Oft er litið niður á þá sem stunda sanna tilbeiðslu, þeir eru niðurlægðir eða jafnvel ofsóttir fyrir að gera vilja Guðs. – Matteus 5:10-12.

Sönn trú er ekki bara sú sem hentar manni

 Það felst ákveðinn hætta í því að velja sér trú eftir tilfinningunni einni saman. Biblían talar um þann tíma þegar fólk mun „hópa að sér [trúarlegum] kennurum eftir eigin fýsnum sínum til þess að heyra það sem kitlar eyrun.“ (2. Tímóteusarbréf 4:3) Þvert á móti hvetur Biblían okkur til þess að iðka trú sem er „hrein og flekklaus guðrækni fyrir Guði,“ jafnvel þó að hún sé óvinsæl. – Jakobsbréfið 1:27; Jóhannes 15:18, 19.