Hoppa beint í efnið

Hvað er að vera andlega sinnaður? Get ég verið það án þess að tilheyra trúarbrögðum?

Hvað er að vera andlega sinnaður? Get ég verið það án þess að tilheyra trúarbrögðum?

Svar Biblíunnar

 Að vera andlega sinnaður, eins og orðasambandið er notað í Biblíunni, gefur til kynna sterka löngun til að gera vilja Guðs og tileinka sér hugsunarhátt hans. Andlega sinnaður einstaklingur kappkostar að lifa lífinu í samræmi við viðhorf Guðs og fylgja leiðsögn heilags anda hans. aRómverjabréfið 8:5; Efesusbréfið 5:1.

 Þegar Biblían útskýrir hvað það merkir að vera andlega sinnaður notar hún oft andstæður. Ólíkt andlega sinnuðum manni tekur ‚holdlega sinnaður maður ekki við því sem kemur frá anda Guðs‘, það er að segja kennslu hans. (1. Korintubréf 2:14–16) Ólíkt andlega sinnuðu fólki hættir holdlegu fólki til að ‚deila og öfunda‘ frekar en að temja sér örlæti og frið. (1. Korintubréf 3:1–3) Og þeir sem bera út róg og valda sundrung og vinaslitum eru sagðir „hegða sér eins og dýr og hafa ekki andlegt hugarfar“. – Júdasarbréfið 19, neðanmáls; Orðskviðirnir 16:28. b

Í þessari grein

 Hvernig verður maður andlega sinnaður?

 Við getum verið andlega sinnuð vegna þess að við erum sköpuð eftir mynd Guðs. (1. Mósebók 1:27) Það er því ekki að undra að flestir kunni að meta það sem er ekki hægt að sjá og snerta og séu forvitnir að vita meira um það.

 Við höfum meðfædda hæfileika til að líkja eftir eiginleikum Jehóva c Guðs, eins og friði, miskunn og óhlutdrægni. (Jakobsbréfið 3:17 ) Og Guð gefur þeim heilagan anda sem gera sitt besta til að hlýða fyrirmælum hans. – Postulasagan 5:32.

 Hvers vegna er mikilvægt að vera andlega sinnaður?

 Að vera andlega sinnaður hefur „líf og frið“ í för með sér. (Rómverjabréfið 8:6) Það eru ómetanlegar gjafir frá Guði.

  •   Líf: Guð lofar andlega sinnuðu fólki eilífu lífi. – Jóhannes 17:3; Galatabréfið 6:8.

  •   Friður: Þetta er friður við Guð. Þeir sem beina athyglinni aðeins að líkamlegum þörfum sínum eru óvinir Guðs. (Rómverjabréfið 8:7) Guð umbunar þeim sem þroskast sem andlegir menn með ‚friði Guðs, sem er æðri öllum skilningi‘. (Filippíbréfið 4:6, 7) Þessi innri friður hjálpar þeim að finna hamingju í lífinu. – Matteus 5:3.

 Hvernig get ég þroskast sem andlega sinnaður einstaklingur?

  •   Kynntu þér fyrirmæli Guðs og hlýddu þeim. Þú gerir það með því að lesa Biblíuna sem hefur að geyma hugsanir Guðs sem menn skrifuðu „knúnir af heilögum anda“. (2. Pétursbréf 1:21) Það sem þú lærir mun hjálpa þér að tilbiðja Guð í „anda og sannleika“ sem þýðir að heilagur andi leiðbeini þér í samræmi við vilja Guðs. – Jóhannes 4:24.

  •   Biddu Guð um hjálp. (Lúkas 11:13) Guð mun hjálpa þér að sýna eiginleika sem einkenna andlega sinnaða manneskju. (Galatabréfið 5:22, 23) Þú getur líka fengið visku til að glíma við erfiðleika lífsins. – Jakobsbréfið 1:5.

  •   Hafðu félagsskap við andlega sinnað fólk. Það mun hvetja þig til að byggja upp þinn andlega mann. (Rómverjabréfið 1:11, 12) Félagsskapur við þá sem hafa viðhorf sem brjóta í bága við viðhorf Guðs getur veikt trú þína. – Jakobsbréfið 4:4.

 Þarf ég að tilheyra trúarbrögðum til að vera andlega sinnaður?

 Það eitt að tilheyra trúarbrögðum gerir mann ekki andlega sinnaðan. Biblían segir: „Ef einhver heldur að hann sé trúaður en hefur ekki taumhald á tungu sinni blekkir hann sjálfan sig og tilbeiðsla hans er til einskis.“ – Jakobsbréfið 1:26, neðanmáls.

 Biblían sýnir hins vegar að andlega sinnað fólk tilbiðji Guð á þann hátt sem hann samþykkir. Það trúir því að það sé aðeins til ‚einn andi‘, heilagur andi Guðs. Þessi andi gerir fólki kleift að tilbiðja Guð sem ‚einn líkami‘, það er skipulagður hópur sem varðveitir „einingu andans í bandi friðarins“. – Efesusbréfið 4:1–4.

 Ranghugmyndir um það að vera andlega sinnaður

 Ranghugmynd: Að vera andlega sinnaður felur í sér allt sem hjálpar þér að vera besta útgáfan af sjálfum þér og vera hamingjusamur.

 Staðreynd: Biblían talar um að andlega sinnuð manneskja láti líf sitt snúast um vilja Guðs en ekki sjálfan sig. Andlegir einstaklingar finna gleði og hamingju í því að viðurkenna Jehóva sem skapara sinn og með því að lifa í samræmi við fyrirætlun hans. – Sálmur 100:3.

 Ranghugmynd: Að neita sér um það sem veitir ánægju og valda sér líkamlegum sársauka er leið til að rækta sinn andlega mann.

 Staðreynd: Harðneskja við líkama sinn er „sjálfvalin tilbeiðsla“ og holdlegur hugsunarháttur. (Kólossubréfið 2:18, 23) Biblían segir að líf þess sem er andlega sinnaður hafi gleði í för með sér en ekki sársauka. – Orðskviðirnir 10:22.

 Ranghugmynd: Samband við andaheiminn og spíritismi almennt gerir þig að andlega sinnuðum einstaklingi.

 Staðreynd: Trúin á að andar látinna geti átt samskipti við þá sem lifa er einn angi spíritisma eða andatrúar. En Biblían kennir að hinir dánu hafi enga meðvitund. (Prédikarinn 9:5) Spíritismi felur því í sér samskipti við andaverur sem eru óvinir Guðs. Spíritismi vekur reiði Guðs og kemur í veg fyrir að fólk geti verið andlega sinnað. – 3. Mósebók 20:6; 5. Mósebók 18:11, 12.

 Ranghugmynd: Bæði menn og dýr hafa andlegt líf.

 Staðreynd: Allt sem Guð skapaði heiðrar hann. (Sálmur 145:10; Rómverjabréfið 1:20) En það eru aðeins skynsemigæddar sköpunarverur Guðs sem geta glætt með sér andlegt hugarfar. Dýrin fylgja eðlishvöt og geta ekki ræktað vináttusamband við Guð. Hegðun þeirra stýrist að mestu leyti af líkamlegum þörfum. (2. Pétursbréf 2:12) Biblían sýnir þannig að andlegt hugarfar á enga samleið með holdlegu hugarfari og hegðun. – Jakobsbréfið 3:15; Júdasarbréfið 19.

a Grunnmerking orðanna sem eru þýdd „andi“ á frummálum Biblíunnar er ‚andardráttur‘. Orðin eru líka notuð í breiðari merkingu um eitthvað sem er ósýnilegt og ber vitni um virkan kraft. Biblían lýsir Guði sem æðstu andaverunni. Andlega sinnuð manneskja velur að láta vilja Guðs og heilagan anda hans leiðbeina sér.

b Þegar Biblían notar orðið „holdlegur“ um menn vísar það til þeirra sem láta hugsun sína og verk aðallega stjórnast af líkamlegum þörfum sínum og skeyta litlu eða engu um meginreglur Guðs.

c Jehóva er nafn Guðs samkvæmt Biblíunni – Sálmur 83:18.