Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Hvað get ég gert ef aðrir slúðra um mig?

Hvað get ég gert ef aðrir slúðra um mig?

 Hvers vegna er það særandi?

 Sumt slúður er illkvittnislegt. Einhver gæti til dæmis viljandi reynt að eyðileggja mannorð þitt með því að ljúga einhverju upp á þig. En slúður getur líka verið særandi þótt slíkar hvatir liggi ekki að baki, sérstaklega ef það kemur frá einhverjum sem þú hélst að væri náinn vinur. – Sálmur 55:13-15.

 „Ég komst að því að vinkona mín var að tala um mig við aðra og segja að mér væri sama um annað fólk. Það særði mig djúpt! Ég skildi ekki hvernig henni gat dottið það í hug.“ – Ashley.

 Staðreynd: Það er aldrei gaman að uppgötva að einhver sé að tala illa um mann, hvort sem það er góður vinur sem slúðrar eða einhver annar.

 Slæmu fréttirnar – það er ekki alltaf hægt að koma í veg fyrir það

 Það eru margar ástæður fyrir því að fólk slúðrar. Til dæmis:

 Einlægur áhugi. Við mennirnir erum félagsverur. Þess vegna er eðlilegt að við tölum við (og um) hvert annað. Í Biblíunni erum við reyndar hvött til að ,líta á hag‘ annarra. – Filippíbréfið 2:4.

 „Athyglisverðasta umræðuefnið snýst alltaf um fólk.“ – Bianca.

 „Ég verð að viðurkenna að mig langar til að vita hvað er um að vera hjá fólki og tala um það við aðra. Ég hef ekki hugmynd um af hverju, það er bara gaman.“ – Katie.

 Manni leiðist. Á biblíutímanum voru sumir sem „gáfu sér ekki tóm til annars fremur en að segja eða heyra einhver nýmæli“. (Postulasagan 17:21) Þetta er algengt á okkar dögum líka.

 „Þegar ekkert spennandi er um að vera býr fólk stundum til sögur svo að það hafi eitthvað að tala um.“ – Joanna.

 Óöryggi. Það er ekki að ástæðulausu að Biblían varar okkur við hættunni að bera okkur saman við aðra. (Galatabréfið 6:4) Sumir sem eru óöruggir með sjálfa sig eiga það til að tala illa um aðra.

 „Þeir sem slúðra segja ýmislegt um sjálfa sig. Oft slúðra þeir vegna þess að þeir öfunda þann sem þeir tala illa um. Þeir gera það til að verða öruggari með sjálfa sig og telja sér trú um að þeir séu betri en sá sem þeir tala illa um.“ – Phil.

 Staðreynd: Hvort sem þér líkar það betur eða verr heldur fólk áfram að tala um aðra – þar á meðal þig.

 Góðu fréttirnar – það þarf ekki að slá þig alveg út af laginu

 Þú getur líklega ekkert gert í því að einhverjir slúðri um þig en þú getur ákveðið hvernig þú bregst við því. Ef þú uppgötvar að það ganga sögur um þig hefurðu í það minnsta tvo valkosti.

 VALKOSTUR 1: Leiddu það hjá þér. Besta lausnin er oft bara að hunsa slúður, sérstaklega ef ekki er um neitt alvarlegt að ræða. Taktu til þín ráð Biblíunnar: „Vertu ekki auðreittur til reiði.“ – Prédikarinn 7:9.

 „Það gekk kjaftasaga um að ég væri byrjuð með strák – strák sem ég hafði aldrei hitt! Þetta var svo fáránlegt að ég hló bara að því.“ – Elise.

 „Gott mannorð er besta vopnið gegn slúðri. Þó að eitthvað slæmt sé sagt um þig eiga fáir eftir að trúa því ef þú hefur gott orð á þér. Sannleikurinn hefur yfirleitt betur.“ – Allison.

 Tillaga: Skrifaðu niður (1) það sem sagt var um þig og (2) hvernig þér leið með það. Þegar þú hefur tjáð tilfinningar þínar og hugleitt málið áttu kannski auðveldara með að leiða það hjá þér. – Sálmur 4:5.

 VALKOSTUR 2: Talaðu við þann sem kom sögunni á kreik. Stundum er það sem sagt er um þig svo slæmt að þú þarft að tala við þann sem kom sögunni af stað.

 „Ef þú talar við þá sem slúðra um þig átta þeir sig kannski á að fyrr eða síðar mun sá sem þeir slúðra um frétta af því. Auk þess hreinsarðu andrúmsloftið og þér tekst vonandi að útkljá málið.“ – Elise.

 Áður en þú ræðir við þann sem hefur talað illa um þig væri gott að þú veltir eftirfarandi ráðum Biblíunnar fyrir þér. Spyrðu þig síðan spurninganna sem fylgja.

  •   „Svari einhver áður en hann hlustar er það heimska.“ (Orðskviðirnir 18:13) Ertu með allar staðreyndirnar á hreinu? Getur verið að sá sem sagði þér frá slúðrinu hafi misskilið það sem hann heyrði?

  •   Vertu „fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði“. (Jakobsbréfið 1:19) Er þetta rétti tíminn til að tala við þann sem slúðraði um þig? Geturðu verið hlutlaus þegar þú ræðir við hann eða væri betra að bíða í smá tíma svo að þú getir náð þér niður?

  •   „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera.“ (Matteus 7:12) Hvernig vildir þú að talað væri við þig ef dæminu væri snúið við? Við hvaða aðstæður myndirðu vilja ræða málið? Hvaða orð og framkoma næði best til þín?

 Tillaga: Skrifaðu niður það sem þú ætlar að segja áður en þú ferð og ræðir málið. Bíddu svo í viku eða hálfan mánuð, lestu þá yfir það sem þú skrifaðir og athugaðu hvort þú viljir breyta einhverju. Ræddu þetta líka við foreldra þína eða vin sem þú getur treyst og fáðu álit þeirra.

 Staðreynd: Eins og með svo margt annað getum við ekki alltaf stjórnað því hvort slúðrað er um okkur. Slúður þarf samt ekki stjórna því hvernig okkur líður.