Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Hvernig get ég tekist á við veikindi? (2. hluti)

Hvernig get ég tekist á við veikindi? (2. hluti)

 Veikindi eru af ýmsum toga.

  •   Sumir eru með augljós einkenni sem allir taka eftir en hjá öðrum sjást einkenni sjúkdómsins ekki á yfirborðinu.

  •   Sum veikindi gera bara vart við sig af og til en önnur eru langvinn, og maður finnur fyrir þeim á hverjum degi.

  •   Suma sjúkdóma er hægt að lækna eða halda þeim niðri en aðrir fara stöðugt versnandi og leiða jafnvel til dauða.

 Allt þetta sem hér er talið upp getur ungt fólk þurft að takast á við. Í þessari grein geturðu kynnst fjórum ungmennum sem berjast við veikindi af ýmsum toga. Ef þú átt við veikindi að stríða gæti verið uppörvandi fyrir þig að lesa það sem þau segja.

 GUÉNAELLE

 Það sem mér finnst erfiðast er að sætta mig við takmörk mín. Mig langar til að gera svo margt en ég þarf alltaf að taka tillit til þess hvernig mér líður.

 Ég er með hreyfitaugasjúkdóm sem veldur því að heilinn nær ekki almennilega að koma boðum til vöðvanna. Mismundandi vöðvar líkamans fara stundum að skjálfa eða lamast jafnvel, og þetta gerist um allan líkamann. Ég á erfitt með að gera hluti, sem eru sjálfsagðir fyrir aðra, eins og að hreyfa mig, tala, lesa, skrifa og skilja fólk. Þegar ástandið er sem verst biðja öldungarnir í söfnuðinum með mér. Þá líður mér strax betur.

 Ég finn að Jehóva er alltaf tilbúinn til að hjálpa mér hvað sem á dynur. Ég vil ekki láta veikindin koma í veg fyrir að ég þjóni honum eins vel og ég get. Biblían lofar að bráðlega breyti Jehóva jörðinni í paradís þar sem enginn þarf lengur að þjást. Ég reyni eftir fremsta megni að segja öðrum frá þessari von. – Opinberunarbókin 21:1-4.

 Til umhugsunar: Hvernig getur þú sýnt að þér sé umhugað um aðra, líkt og Guénaelle? – 1. Korintubréf 10:24.

 ZACHARY

 Þegar ég var 16 ára greindist ég með ágengt krabbamein í heila. Læknarnir sögðu að ég ætti aðeins átta mánuði ólifaða. Síðan þá hef ég barist fyrir lífi mínu.

 Æxlin eru þannig staðsett að líkaminn er lamaður hægra megin. Þar sem ég get ekki gengið þarf alltaf einhver að vera til staðar til að hjálpa mér.

 Eins og komið er á ég erfitt með að tala skýrt. Ég hef alltaf verið atorkusamur og haft gaman af íþróttum eins og að fara á sjóskíði, spila körfubolta og blak. Ég er líka vottur Jehóva og tók mikinn þátt í boðuninni. Ég held að fæstir skilji hvernig það er að vera ekki lengur fær um að gera það sem skiptir mann svo miklu máli.

 Mér finnst uppörvandi að lesa orðin í Jesaja 57:15 því að þau fullvissa mig um að Jehóva er með þeim sem eru ,þjakaðir í anda‘ og að honum er annt um mig. Í Jesaja 35:6 lofar Jehóva auk þess að ég eigi eftir að geta gengið á nýjan leik og þjónað honum heilsuhraustur.

 Þó að það sé stundum mjög erfitt að takast á við veikindin efast ég ekki um að Jehóva styðji við bakið á mér. Ég get leitað til hans í bæn og hef því alltaf einhvern til að tala við þegar ég er niðurdreginn eða hræddur um að deyja. Ekkert getur komið í veg fyrir að kærleikur Jehóva nái til mín. – Rómverjabréfið 8:39.

 Zachary lést 18 ára að aldri, tveim mánuðum eftir að þetta viðtal var tekið. Allt til dauðadags hafði hann sterka trú á loforð Guðs um að hann reisi fólk upp frá dauðum í framtíðinni þegar jörðin verður paradís.

 Til umhugsunar: Hvernig getur bænin hjálpað þér, eins og hún hjálpaði Zachary, að finna alltaf fyrir kærleika Jehóva?

 ANAÏS

 Ég fékk heilablóðfall þegar ég var bara nokkurra daga gömul. Þess vegna á ég við fötlun að stríða sem hefur áhrif á allan líkamann, sérstaklega fæturna.

 Ég get gengið stuttar vegalengdir með göngugrind en yfirleitt þarf ég að nota hjólastól. Ég fæ líka krampa eða spasma sem veldur því að ég á erfitt með að gera hluti sem krefjast fínhreyfinga, eins og að skrifa.

 Það hefur ekki bara verið erfitt að takast á við veikindin heldur hefur meðferðin sömuleiðis reynt á. Ég hef verið hjá sjúkraþjálfara nokkrum sinnum í viku eins lengi og ég man eftir mér. Fimm ára gömul fór ég í fyrstu stóru aðgerðina og ég hef farið í þrjár í viðbót eftir það. Það var sérstaklega erfitt eftir síðustu tvær aðgerðirnar því að endurhæfingin tók þrjá mánuði og ég komst ekki heim á meðan.

 Fjölskyldan hefur hjálpað mér mikið. Við hlæjum saman og það hressir mig við þegar ég er döpur. Mamma og systur mínar hjálpa mér að líta vel út fyrst ég get ekki séð um það sjálf. Mér finnst leiðinlegt að geta ekki notað háhælaða skó, en einu sinni þegar ég var lítil tókst mér það samt. Ég skreið um með skóna á höndunum og okkur fannst það öllum mjög fyndið.

 Ég reyni að láta veikindin ekki stjórna mér. Ég er að læra tungumál. Og þó að ég geti ekki farið á brimbretti eða snjóbretti get ég alltaf synt. Þar sem ég er vottur Jehóva hef ég líka gaman af því að boða trúna. Fólk hlustar vel þegar ég tala við það.

 Foreldrar mínir kenndu mér snemma að veikindi mín myndu einn daginn heyra sögunni til. Allt frá því hef ég styrkt trúna á Jehóva og loforð hans um að allar þjáningar taki enda. (Opinberunarbókin 21:3, 4) Þetta veitir mér kjark til að halda áfram.

 Til umhugsunar: Hvernig getur þú reynt, eins og Anaïs, að láta veikindin ekki stjórna þér?

 JULIANA

 Ég er með sársaukafullan sjálfsónæmissjúkdóm sem getur haft skaðleg áhrif á hjartað, lungun og blóðið. Nýrun hafa nú þegar orðið fyrir skemmdum.

 Ég var tíu ára þegar ég greindist með rauða úlfa (lúpus), sjúkdóm sem veldur verkjum, þreytu og skapsveiflum. Stundum finnst mér ég vera einskis virði.

 Þegar ég var 13 ára bankaði kona, sem var vottur Jehóva, upp á hjá okkur. Hún las Jesaja 41:10 fyrir mig en þar segir Jehóva: „Óttast eigi því að ég er með þér ... ég styð þig með sigrandi hendi minni.“ Það var þá sem ég fór að kynna mér Biblíuna með vottum Jehóva. Núna, átta árum síðar, þjóna ég Guði af öllu hjarta og ég er ákveðin í að láta ekki veikindi mín stjórna lífinu. Ég finn fyrir því hvernig Jehóva hefur veitt mér ,kraftinn mikla‘ svo að ég geti verið jákvæð. – 2. Korintubréf 4:7.

 Til umhugsunar: Hvernig getur hvatningin í Jesaja 41:10 hjálpað þér að vera jákvæður eins og Juliana?